SAFNANÓTT
Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 7. febrúar 2020 en þá opna 54 söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til 23.00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.
Frítt er í sérstakan Safnanæturstrætó á milli safna.
Á Facebook síðu Vetarhátíðar fer fram Safnanæturleikur í aðdraganda hátíðarinnar. Leikurinn felst í því að líka við síðu Vetrarhátíðar á Facebook og merkja vin sem þú ætlar taka með þér á Safnanótt. Vegleg verðlaun eru í boði t.d. miðar á Iceland Airwaves, Sónar Reykjavík, leikhúsmiðar og margt fleira.
SUNDLAUGANÓTT
Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 8. febrúar 2020 en þá verður frítt í sund frá 17:00 til 22.00 í tólf sundlaugum Höfuðborgarsvæðisins. Uppákomur í laugunum verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að slaka á og njóta stundarinnar.
Ljósaganga Vetrarhátíðar
Ljósaganga Vetrarhátíðar lýsir upp skammdegið á skapandi hátt og myndar skemmtilega gönguleið. Sex ljóslistaverkum verður varpað öll kvöld yfir hátíðinna frá kl 19-23. Hér eru þær staðsetningar sem verkin verða á: Passage eftir Nocturnal - Hallgrímskirkja sem er unnið í samvinnu við List í Ljósi, Tiny Massive - Hörputorgi, Museum of the Moon - Harpa tónlistarhús, Second Litany - Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús, Geirsgötumegin, ALDA - Ráðhús Reykjavíkur og De-LuX - Listasafn Íslands. Þess má geta að árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur.