App um útilistaverk og menningargöngur

APP UM ÚTILISTAVERK Í REYKJAVÍK

 

Listasafn Reykjavíkur kynnir með stolti nýtt og vandað app um útilistaverk í Reykjavík. Á einfaldan og skemmtilegan hátt má fræðast um öll útilistaverk sem Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með í borgarlandinu, ásamt fleiri verkum, hlusta á hljóðleiðsagnir og fara í skemmtilega leiki. Appinu má hlaða niður endurgjaldslaust í snjalltæki, bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi. Appið er bæði á íslensku (Útilistaverk í Reykjavík) og ensku (Reykjavík Art Walk), allt eftir stillingu snjalltækisins. Appið hentar bæði fyrir börn og fullorðna. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með um tvö hundruð útlistaverkum í borginni. Með appinu er hægt að nálgast upplýsingar um verkin. Þar er að finna myndir, texta, hljóðleiðsagnir og leiki. Útilistaverk í Reykjavík styðst við GPS staðsetningarbúnað símans til að vísa leiðina að næsta verki á almannfæri. Smáforritið býður upp á fræðslu og sögur á bak við hvert og eitt verk.

 

RAFRÆNAR MENNINGARGÖNGUR

Bókmenntaborgin býður upp á fríar bókmenntagöngur um mið- og vesturbæ Reykjavíkur með leiðsögn sem hægt er að fara í hvenær sem er. Hægt er að velja um göngur með leiðsögn á íslensku, ensku, spænsku, þýsku og frönsku.
 
Göngurnar eru í rafrænu formi og það er því jafnvel hægt að „ganga“ þær úr sófanum heima þótt við mælum nú miklu frekar með því að bregða sér í göngutúr og rölta um þessar bókmenntaslóðir í borginni. Fólk nálgast göngurnar með því að hlaða niður appinu Reykjavik Culture Walks, hvort sem er fyrir iPhone eða Android síma. 
 
 
 

GÖNGUR FYRIR ALLA

Í appinu eru nú sex göngur á íslensku, fimm á ensku, tvær á spænsku, tvær á frönsku og ein á þýsku.
 
Meðal annars er þarna að finna ensku gönguna Literary Reykjavík, sem kynnir bókmenntir frá mismunandi tímum, aðra göngu á ensku þar sem glæpasögur Arnaldar Indriðasonar eru í brennidepli og íslenska krimmagöngu með þátttöku nokkurra af okkar þekktustu glæpasagnahöfundum. Þá er ein ganga helguð slóðum Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness í miðbænum og er hún bæði á íslensku og ensku. Enn önnur ganga á íslensku fer með okkur um slóðir nokkurra bóka Braga Ólafssonar í Vesturbænum.
 
Einnig er ganga á þýsku sem kynnir íslenska bókmenntasögu frá söguöld til okkar tíma og ganga á íslensku, ensku og frönsku um landnámið í Reykjavík sem er unnin af Borgarsögusafni Reykjavíkur. Þá er einnig ganga á frönsku með listamanninum Philippe Guerry sem var gestahöfundur í Reykjavík 2018.
 
Spænsku göngurnar eru annars vegar glæpasagnaganga og hins vegar ganga þar sem ýmsar bækur frá ólíkum tímum koma við sögu.