Um Vetrarhátíð

 

VETRARHÁTIÐ Í REYKJAVÍK

Vetrarhátíð verður haldin dagana 7. – 10. febrúar 2019 í 18. sinn og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samstendur af fjórum meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni.
Frítt er inn á alla viðburði á Vetrarhátíð.
Á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu verða upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar,  grænum og fjólubláum, auk þess sem ljóslistaverk verða á nokkrum lykilbyggingum á höfuðborgarsvæðinu; Hallgrímskirkju, Hörpu, Ráðhúsi Reykjavíkur og Kópavogskirkju.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lýsa einnig upp lykilbyggingar. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í þessu samspili ljóss og myrkurs.  
Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi. Orkusalan er aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í ár og hátíðin unnin í samstarfi við Hljóðx.
 
 

 

SAFNANÓTT

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 8. febrúar 2019 en þá opna fimmtíu söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til kl 23.00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.
Frítt er í sérstakan Safnanæturstrætó á milli allra safnanna.
Á Safnanótt fer fram Safnanæturleikur. Hægt er að taka þátt í leiknum með því að svara laufléttum spurningum og safna stimplum frá mismunandi söfnum sem þú heimsækir. Þátttökublað og spurningu leiksins er hægt að nálgast á öllum söfnum sem taka þátt í Safnanótt. Þátttökublaðinu er skilað í þar til gerða kassa á söfnunum og þú gætir unnið glæsilegan vinning. Dregið verður úr Safnanæturleiknum 16. febrúar. 

SUNDLAUGANÓTT

Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 9. febrúar 2019 en þá verður frítt í sund frá klukkan 18:00 til 22.00 í níu sundlaugum Höfuðborgarsvæðisins. Uppákomur í laugunum verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að dansa, syngja eða slaka á og njóta stundarinnar.