Mín dagskrá 0 menu

VETRARHÁTIÐ Í REYKJAVÍK

Vetrarhátíð er hátíð ljóss og myrkurs og verður haldin í fimmtánda sinn 4-7. febrúar 2016. Á henni fær magnað myrkur að njóta sín en hátíðin verður öll hin glæsilegasta og mun fjöldi listamanna, safna og sundlauga taka þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. Vetrarhátíð er haldin á höfuðborgarsvæðinu og taka öll sex bæjarfélögin þátt. Sundlauganótt, Safnanótt og Snjófögnuður eru meginstoðir hátíðarinnar ásamt ljóslistaverkum sem lýsa upp skammdegið. Einnig verður snjófögnuður í Bláfjöllum ef veður leyfir á sunnudag. Af nógu verður að taka á þessum dimmu vetrardögum þar sem magnað myrkur fær að njóta sín.

Allir viðburðir hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu og geta því allir borgarbúar notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru yfir alla hátíðina.

SAFNANÓTT

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 5. febrúar en þá opna 36 söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 19:00 til miðnættis. Söfnin munu leggja áherslu á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita þannig fastagestum nýja sýn á söfnin og laða að sér nýja. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið hennar fram undir miðnætti sér að kostnaðarlausu. Frítt er í sérstaka safnanætur strætó á milli allra safnanna.

Safnanæturleikurinn

Á Safnanótt fer fram Safnanæturleikur. Taktu þátt í leiknum með því að svara laufléttum spurningum og safna stimplum frá mismunandi söfnum sem þú heimsækir. Þátttökublað leiksins er hægt að nálgast á öllum söfnum sem taka þátt í Safnanótt. Þátttökublaðinu er skilað í þar til gerða kassa á söfnunum.


Þátttökublað Safnanæturleiksins (pdf)

 

SUNDLAUGANÓTT

Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 6. febrúar en þá verður frítt í sund frá klukkan 16:00 til miðnættis í fjölmörgum sundlaugum Höfuðborgarsvæðisins. Uppákomur í laugunum verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að dansa, syngja eða slaka á og njóta stundarinnar.